Allt í lagi. Þessi áskorun heillar mig dálítið. Þið getið lesið nánar um hana hér. Ég sá hana fyrst á blogginu hjá Helga Ómars og varð agalega forvitin.
Hún snýst um að staldra við í amstri dagsins og reyna að koma auga á það sem veitir manni hamingju og gleði. Stórt eða smátt. Merkilegt eða ómerkilegt. Þetta snýst sennilega um að gefa því fallega í lífinu meiri gaum. Þessu má síðan deila á samfélagsmiðli að eigin vali - til dæmis Instagram eða Facebook. Hasstaggið #100happydays þarf víst að fylgja kjósi maður að taka þátt í þessari áskorun.
Ég ætla að vera með. En ég ætla að setja þessi augnablik hingað inn á bloggið. Augnablik, hluti, fólk - líklega eitthvað rauðvín. Sjáum til hvar ég finn hamingjuna. Það verður þá ein mynd á dag ásamt útskýringu á henni og hvaða hamingju hún felur í sér. Eitthvað stutt og laggott helst. Ef ég mögulega get verið stuttorð.
Bloggið tekur engum breytingum - það heldur auðvitað sínum dampi þó ég reyni að koma þessu að á hverjum degi. Engar áhyggjur. Ég er ekkert að fara að breytast í hífandi hamingjusaman Búddista.
Mér finnst þetta aðallega spennandi af því ég er virkilega neikvæð. Svört sál inn við beinið. Í alvöru. Ég er líka ferlega lítið væmin. Nema í einrúmi. Þannig að það er áskorun fyrir mig að ætla að ræða hvað veitir mér hamingju. Eða hreinlega reyna að finna það á annað borð.
Mig langar bara rosalega að prófa að leggja mig fram við að skoða hvað veitir mér gleði. Í heila 100 daga. Gæti orðið fjári erfitt. Ég gæti hætt á miðri leið. Ég gæti hætt á morgun.
Allavega, ég ætla að prófa. Byrjum á eftir.
Heyrumst.
Mér lýst ótrúlega vel á að þú prufir :)
ReplyDelete-Ég ákvað einn daginn að reyna að hætta að vera svona hrikalega svartsýn og neikvæð eins og ég var, bara það að vera meðvituð og reyna eins og ég get hefur gert mig nokkuð jákvæða, bjartsýna og hamingjusamari :) já reyndar og smá væmna…. en það er alltílagi stundum :)
Hlakka til að fylgjast með!
Einmitt - það er það sem ég vil ná fram með þessu, reyna að vera meðvituð um að horfa í kringum mig og sjá það sem gerir mig glaða, jákvæða eða hamingjusama. Mögulega væmna. Það væri ekkert verra.
ReplyDeleteÉg er agaleg eins og ég er í dag sko!