Apr 3, 2014

Fimm hlutir á fimmtudegi.



Stundum langar mig í eitthvað voðalega gott kjöt. Með góðri sósu. Maísbaunum og rauðkáli. Bakaðri kartöflu jafnvel. En nei, ég tími bara alls ekkert að kaupa mér kjöt. Hvað geri ég þá? Nú ég bý mér til góða sósu og borða hana með maísbaunum og rauðkáli.

Sannkölluð veislumáltíð. Eða svona næstum því.



Mér var boðið í svo stórskemmtilega heimsókn í dag. Ég fór í Iðnmark og fékk að fylgjast með Stjörnupoppi fæðast. Poppdrottningunni þótti þetta nú ekki leiðinleg upplifun. Almáttugur. Ég fékk líka að smakka fullt. Vita leyndarmál. Þreifa á baunum. Þefa. Horfa. 

Ekki fór ég tómhent heim. Það var svoleiðis hlaðið á mig gúmmelaðinu. Jeminn eini. Ég ætla sko að sofa með þetta allt saman upp í hjá mér í nótt. 




Ég er með króníska þráhyggju hvað varðar sléttar tölur. Ef ég hækka eða lækka í sjónvarpi þá verður það að enda á sléttri tölu. Sama gildir um útvarpið. Þetta getur verið vandamál ef ég er til dæmis í bíl hjá ókunnugri manneskju og hún skilur útvarpið eftir á oddatölu. 

Ég fæ alveg svona óþægindatilfinningu í magann. Líður stundum eins og hann ætli hreinlega að rifna. Ég byrja að svitna og finn hvernig undarleg sturlunin heltekur mig. Nei, ég ræð bara ekki með nokkru móti við mig. Ég læt vaða á helvítis útvarpið. Sama með hverjum ég er í bíl eða í hvaða aðstæðum. 

Ég borða líka í sléttum tölum. Jájá. Ef ég fæ mér kúlur verða þær að vera tvær eða fjórar. Ókei, stundum treð ég líka sex stykkjum upp í mig. Ef ég borða ópal verða þau alltaf að vera fjögur. Popp - ég fæ mér lúku og týni tvö og tvö upp í mig. 


 Hann er fundinn. Ó, hann er kominn heim. Varasalvi varasalvanna. Með hnetusmjörsbragði! Aldeilis sem hamingjan heilsaði upp á mig þegar ég fann hann þennan. Í MegaStore - auðvitað. 


Ég fann líka sokkapar með uppáhalds Disney prinsessunni minni. Sem passar á mig. 

Ó, Öskubuska. Ég elska hana. Þegar ég var krakki var ég alltaf að leika atriðið þar sem hún missir glerskóinn sinn í tröppunum. Kirkjutröppurnar á Eskifirði voru leiksvið mitt. Ég var bara ein að leika þennan leikþátt með sjálfri mér. Eðlilega barnið sem ég var. 

Jæja. Ég ætla að fá mér popp. Jú og rauðvín.

Heyrumst.

12 comments:

  1. Haha....veiiii! Ég hélt að ég væri ein um þráhyggjuna með sléttu tölurnar :)
    Stuðningshópafundir??

    ReplyDelete
    Replies
    1. Jeminn! Ég mæti. Kem með popp. Sem ég tel sennilega ofan í pokann.

      Delete
  2. Hjálpi mér allir heilagir ;o) Væri sko til í að vera í kringum þig í nokkra daga ;)

    ReplyDelete
    Replies
    1. Hahahaha - þú verður að hafa hraðar hendur. Þessar birgðir taka mig sko minna en nokkra daga!

      Delete
  3. Hahah fyrst þegar ég sá efstu myndina hugsaði ég hvað þetta væri nú girnileg steik sem væri búið að drekkja í sósu, alveg mér að skapi!

    ReplyDelete
    Replies
    1. Hahahahaha. Iss. Steik er aukaatriði. Meðlætið er aðalmálið!

      Delete
  4. Þú ert stókostleg, elska að lesa bloggið þitt, takk fyrir að vera til
    kveðja Silley

    ReplyDelete
    Replies
    1. Þúsund þakkir og kossar í þína átt elsku Silley.

      Takk fyrir að lesa**

      Delete
  5. bara töffarar sem borða popp og drekka rauðvín með :)

    ReplyDelete
  6. Mikið er ég fegin að vera ekki sú eina með sléttra tölu áráttu á hæsta stigi, var farin að hafa svolitlar áhyggjur af eigin ágæti!

    ReplyDelete
    Replies
    1. Iss. Hafðu engar áhyggjur. Mér finnst við báðar fullkomlega eðlilegar.

      Delete