Gærdagurinn var bæði misheppnaður og dásamlegur í senn. Pabbi átti að halda mömmu að heiman helst allan daginn á meðan við systur undirbjuggum óvænta veislu henni til heiðurs.
Rómantíkerinn hann faðir minn hafði farið með afmælisbarnið í bústað kvöldið áður og átti svo að halda henni upptekinni fram eftir degi. Við systur fengum síðan fregnir af því um hádegi að hann væri að bjóða henni upp á kaffisopa í Olís á Reyðarfirði. Allt til að halda henni að heiman.
Okkur fannst nú ekki við hæfi að eyða fimmtugsafmælinu í Olís þannig að við gáfum leyfi á heimkomu. Óvænta veislan var því fyrir bí.
Þrátt fyrir að hið óvænta hafi fokið út um veður og vind lukkaðist dagurinn alveg ljómandi vel. Ég kom óvænt að sunnan á fimmtudagskvöldið. Ísak Örn bróðir minn skilaði sér svo heim öllum að óvörum í gærkvöldi þannig að öll fjölskyldan var samankomin. Sem er nú ekki sjálfgefið þessa dagana.
Þetta er pabbi minn. Hinn víðfrægi Gummi Gylfa. Mögulegt er að þið hafið lesið fréttir af honum í vikunni.
Í fáeinar mínútur, sem virtust heil eilífð, fór líf fjölskyldunnar svo gott sem á hliðina. Við vissum ekkert. Nema að pabbi væri lengst úti á sjó í sökkvandi bát. En hann pabbi, elsku pabbi. Jaxlinn sem hann er. Reisir við sökkvandi bát sem kominn er á hliðina. Aðspurður segist hann hafa fengið ,,smá skrekk."
Einmitt. Smá skrekk. Aldrei í lífinu hefur mig langað eins mikið að faðma hvern einasta björgunarsveitamann á landinu. Nú eða Guð almáttugan. Eða bara einhver æðri máttarvöld sem voru að verki þennan miðvikudaginn.
Björgunarsveitirnar. Almáttugur minn. Maður vart skilur um hvurslags ofurhetjur er að ræða fyrr en þær koma einhverjum til bjargar sem stendur manni næst.
Burtséð frá lífsháska föður míns þá er þetta hið fínasta kampavín. Flaskan er svo ferlega falleg. Kostar eitthvað rétt um þúsund krónur.
Mamma afmælisbarn, elsku amma mín og við systur.
Ofsalega góður dagur í faðmi fjölskyldunnar.
Lífið er hverfult. Við vorum aðeins minnt á það í vikunni.
Annað veifið verður maður að staldra við. Njóta. Þakka fyrir sig.
Heyrumst.
til hamingju með mömmu þína og þessa fínu veislu!
ReplyDelete