Þetta er mamma mín. Í dag er hún fimmtug.
Hún er sennilega svona 25 ára á þessari ágætu mynd af okkur mæðgum. Hún lítur nákvæmlega eins út í dag. Fyrir utan örlítið styttra hár.
Í janúar setti hún sér það markmið að vera í sínu besta líkamlega formi þegar hún yrði fimmtug. Það tókst. Ég lít út eins og legusjúklingur á Reykjalundi við hliðina á henni. Aldrei myndi mamma setja sér markmið og ljúka ekki við þau. Aldrei. Ákveðnasta og mest drífandi kona sem ég þekki.
Mamma getur bæði verið manns harðasti gagnrýnandi og helsti bandamaður. Hreinskilin, einlæg og enginn sykurhúðari. Engar stórar ákvarðanir eru teknar í Breiðholtinu án þess að þær fari í gegnum Eskifjörð fyrst. Ég ber allt undir mömmu mína.
Æ, ég hringi reyndar í hana við öll tilefni. Lítil og stór. Gleði eða sorg. Mamma er aldrei nema símtal í burtu og alltaf tílbúin til þess að hlusta. Hugga mig, skamma, ráðleggja eða baða mig væntumþykju.
Ef mömmu nyti ekki við væri ég ekki að ljúka fimmta árinu mínu í háskóla. Ó, svo aldeilis ekki. Hún hefur alla tíð fyllt mann metnaði. Alla tíð ítrekað við okkur systkinin að okkur stæðu allar dyr opnar og okkur væri ekkert ómögulegt.
Það er ekki fyrr en í seinni tíð sem maður áttar sig á hversu ómetanlegt veganesti það er.
Afkvæmið gæti ekki verið heppnari að eiga hana. Elsku besta Sigrún amma. Aldeilis sem hún hefur og á eftir að kenna honum margt. Enda þessi amma með klárari konum sem hægt er að finna.
Planið var að ganga inn um dyrnar heima á Eskifirði í kvöld og koma henni á óvart. Þær áætlanir urðu snögglega að engu. Ég sat við kaffidrykkju og bakkelsisát í bakaríinu á Reyðarfirði í morgun þegar hún gengur þar inn. Gómuð. Helvítis vesen.
Jæja, það á engin afmæli án þess að ég mixi kokteila.
Heyrumst fljótlega.
Fallegt, veit ekki hvor er heppnari, þú með mömmu eða mamma með þig. Allavega, elsku Guðrún Veiga, ertu stórrík að eiga svona mikið! Afkvæmið og forfeður... Luv, gamlan.
ReplyDelete