Oct 1, 2014

Fyrsti í meistara.


Sko. Ég ætla að vera með í meistaramánuði. Gera heiðarlega tilraun til þess allavega. Án þess að steindeyja. 

Ég mun bara ekki að byrja fyrr en á morgun. Neibb. Ég þoli ekki oddatölur og get þess vegna ekki hafist handa við meistaramánuð 1.október. Ég er með króníska þráhyggju hvað varðar sléttar tölur. Ég hef skrifað um þessa maníu áður. Ef ég hækka eða lækka í sjónvarpi verður það að enda á sléttri tölu. Sama saga með útvarpið. Ég borða líka í sléttum tölum. Ef það er til dæmis ein bingókúla eftir í pokanum þá hendi ég henni frekar en að setja hana upp í mig.

Nóg um það.

Mál málanna. Oreounaður dagsins.


3 bollar Rice Krispies
10 stykki Oreo
2 og 1/2 bolli sykurpúðar
1 og 1/2 matskeið smjör
Hvítt súkkulaði til skrauts



Setjið Oreokexið í poka og lúskrið aðeins á því með kökukefli. Nú eða bara hnetusmjörskrukku.


Rice Krispies fer í skál og Oreoið hrært út í.


Bræðið smjör og sykurpúða saman við vægan hita þar til blandan verður silkimjúk.


Hellið sykurpúðamixtúrunni í skálina og hrærið öllu vel og vandlega saman. Smyrjið lítið eldfast mót og látið innihald skálarinnar flakka ofan í það.


Sléttið og gerið snyrtilegt.

Bræðið dálítið hvítt súkkulaði og slengið yfir. Inn í ísskáp með þetta í 30 mínútur.




Amma mín segir að það eigi aldrei að nota orðið ógeðslega þegar talað er um mat. Ég ætla að gera undantekningu í þetta skiptið.

Þetta er ógeðslega gott. 

Ykkur er velkomið að fylgjast með mér og mínum meistaramánuði á Instagram - @gveiga85.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment