Nov 5, 2014

Geymslur.

Allt í lagi. Þetta er mögulega með því furðulegra sem ég hef skrifað hérna inn. Fyrir utan þarna þegar ég reif af mér geirvörturnar með einangrunarlímbandi.

Jæja. Ég er heimilslaus. Tæknilega séð. Fljótlega að minnsta kosti. Og þar sem ég get ekki flakkað með búslóðina um á bakinu þá varð ég að finna henni samastað. Mér var bent á fyrirtækið geymslur.com sem leigir út geymslur af öllum stærðum og gerðum.

Já, við erum að fara að tala um vörugeymslur.


Ég fyllti út fyrirspurn um geymslu á heimasíðunni þeirra og eftir svona 30 sekúndur fékk ég símtal. Ó, maðurinn á hinni línunni. Hann var eins og bragðgott smjörkrem. Þvílíka þjónustulundin. Ég þurfti alveg að hemja mig í að spyrja ekki hvernig hann væri klæddur eða hvort það væri til frú geymsla. 

Hann vildi bókstaflega allt fyrir mig gera. Ég var ferlega óákveðin með þetta allt saman og hann bauðst til þess að taka frá fyrir mig geymslu þar til ég væri viss. Þó hann ætti bara eina geymslu í þeirri stærð sem ég þurfti. Kannski var það lygi en mér er alveg sama. 

Það besta er að geymsla undir litla búslóð kostar 7000 krónur á mánuði. Það er vel sloppið. Ég var að hugsa um að athuga möguleikann á því að leigja geymslu undir sjálfa mig. Gluggar eru ofmetnir. 7000 kall í leigu á mánuði - ó boj. Ég gæti notað rauðvín út á morgunkornið mitt. Lifað eins og drottning.

Þetta ágæta geymslufyrirtæki greiddi mér ekki fyrir þessa umfjöllun. Né lét mig hafa fría geymslu. Eða þak yfir höfuðið. Eða vínbelju. Ó, nei. Góð þjónusta gleymist bara alltof oft. 

Þá er þessu bloggi um geymslur hér með lokið. 

Heyrumst.

1 comment:

  1. Hæ, mætti ég spyrja hvaða stærð af geymslu þú varst að pæla í? Þ.e hvaða geymsla það var sem kostaði 7.000?
    Er einmitt í geymsluhugleiðingum og er óviss með stærðina og verð, er með litla búslóð. bestu kv.

    ReplyDelete