Það er tvennt sem mig langar að mæla með á þessum ljúfa sunnudegi. Ég er að skrökva þegar ég segi ljúfa. Þessi sunnudagur var með þeim djöfullegri. Ég fór á dansleik í gærkvöldi. Með Stjórninni á Spot í Kópavogi.
Ég var afar hamingjusöm þegar vinahópurinn vildi gera sér glaðan dag í Kópavogi. Það þýddi að ég væri nú aldeilis ekki að fara að spreða mörgum seðlum í leigubílakostnað. Það er nefnilega stór steinn í götu minni þegar kemur að næturlífinu. Leigubíll úr miðbænum í Breiðholtið kostar næstum fimmþúsund krónur. Blóðugt. Verður þess valdandi að ég enda sem gardínubytta.
Jæja, burtséð frá því. Ég skoppa upp í leigubíl fyrir utan Spot í gærkvöldi. Seint í nótt réttara sagt. Skyndilega átta ég mig á því að ég er gjörsamlega aðframkomin af hungri. Ég vildi pizzu. Með frönskum og bernaisesósu. Og snakk. Og nammi. Og jólaöl.
Rikki ríki (ég) sá hreinlega ekkert því til fyrirstöðu að láta leigubílsstjórann keyra um borgina að leita að opnum pizzastað. Nú eða láta hann hinkra fyrir utan 10-11 á meðan ég stundaði stórinnkaup. 6600 krónur. Fyrir utan pizzukaup og verslunarferð. Vel gert. Virkilega.
Jæja, þetta er ekki til umræðu. Meðmælin eru það hins vegar.
Það eru tvö blogg sem mig langar að mæla með við ykkur. Sem ég hef tekið ástfóstri við. Og lesið út á enda. Oftar en einu sinni.
Fyrst er það Iðunn Jónasar förðunarfræðingur. Ég flakka ekkert mikið um förðunarblogg. Þegar búið er að sjúga spenann á LÍN í að verða fimm ár þá eru förðunarvörur ekki ofarlega á innkaupalistanum. Að minnsta kosti ekki dýrari týpan. Segir konan sem dólaði sér fjölda kílómetra með leigubíl í gær.
Iðunn er stórskemmtileg. Ferlega fyndin. Og bloggar um allskonar dót. Dýrt og ódýrt. Það kann ég vel að meta. Hún líka bara svo frumleg þegar kemur að förðun. Bloggið hennar er stútfullt af litríkum skemmtilegheitum.
Síðast en ekki síst er það elskulegt, bloggið hennar Dúddu. Jájá, ég kalla hana bara Dúddu eins og ég þekki hana. Bloggið hennar er hreint út sagt dásamlegt. Yndislegar myndir og afar einlægt og fallegt blogg. Það er bara eitthvað svo eðlilegt. Ef svo má að orði komast.
Elskulegt gefur mér alltaf dálitla hlýju í hjartað. Blogg sem ég held mikið upp á og hef gert lengi.
Jæja. Ég þarf að halda áfram að skera niður fjárhagsáætlun mína fyrir jólagjafakaup. Um heilar 6600 krónur.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment