Jan 2, 2015

Áramót.


Guðmundur Gylfason, pabbi minn, sem grillar alltaf á gamlárs. 


Það er afar sjaldan lognmolla í þessu eldhúsi.



Humarsúpa. Upphafið að þriggja rétta máltíð. Það tekur einhverjar tólf ræktarferðir að losa sig við þennan snæðing. Sem er vesen fyrir mig. Ég fer ekki tólf slíkar ferðir á ári. Nei. 



Að þessum diski loknum var orðið erfitt að anda. 


Ég fæ reyndar bara Toblerone-ístertu einu sinni á ári, þið vitið. Það var ekkert annað í stöðunni en að koma henni niður. Það var erfitt að kyngja. Erfitt að blikka augunum. Erfitt að halda meðvitund.

Niður fór hún samt. Auðvitað.


Heimilisleg. Og sjoppuleg í senn. Bróðir minn búinn að hella niður á sig. Afkvæmið með vömbina út í loftið. Ég eins og rós í illgresisbeði. 



Álit mitt á áramótaskaupinu. Svona sirka.




Ég er ávallt vopnuð myndavél. Það fer misjafnlega vel í fólk. Mamma mín á það til að byrja með dólgslæti þegar ég ríf upp vélina. Í hvert skipti hóta ég henni að birta það á internetinu. En stend aldrei við það.

Þeir dagar eru taldir. Gjörðu svo vel mamma.




Sprengjugengið mitt. 

Ég fór frekar dofin í gegnum síðustu áramót. Ég var í einhverskonar andlegri lægð og hafði engar væntingar til komandi árs. Ekki nokkrar einustu. Engar væntingar, engin vonbrigði - ekki rétt? 
Satt best að segja hefði ég, fyrir ári síðan, verið vel tilbúin til þess að leggjast undir sæng og lúra þar út árið. Með breitt yfir haus. 

Allt fór þetta nú betur en á horfðist. Það rofaði fljótlega til. Blessunarlega. Árið 2014 var að mörgu leyti eitt mitt besta ár til þessa. Efst í huga mér er þakklæti. Alveg hellingur af því. Árið færði mér fjölda tækifæra. Sum þefuðu mig uppi. Önnur eltist ég við sjálf. Margir draumar rættust. Einhverjir fóru í vaskinn. Sem er í góðu lagi. Ég á svo sannarlega nóg af þeim. 

Ég geng fremur sátt og sæl inn í nýtt ár. Svolítið södd líka. Úff. Smávægilega atvinnulaus einnig. Ég var að skoða atvinnuauglýsingar áðan. Það vantar aðastoðarmann á sveitabæ. Og bílasala hjá Toyota. Það er enn óljóst á hvorum staðnum ég enda.

Áramótaheit eru engin. Þau eru leiðinleg. 

Takk fyrir samfylgdina á árinu elsku lesendur. Við höldum ótrauð áfram inn í 2015. Hlakka til þess að eyða því með ykkur. Svona rafrænt allavega. 

Eigið ljúfa helgi mín kæru.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment