Apr 8, 2015

Minilik veitingahús


Á föstudaginn langa snæddi ég á eþíópíska veitningastaðnum Minilik, sem staðsettur er á Flúðum. Stórmerkilegt fyrirbæri. Eiginlega stórkostlegt fyrirbæri. Hálfgerður ævintýraheimur. Fyrir utan þá staðreynd að það er ekki boðið upp á hnífapör. 

Ég er yfirleitt subbuleg þó ég borði með hnífapörum. Þið getið rétt ímyndað ykkur aðfarirnar þegar guðsgafflarnir voru brúkaðir við átið. 


Þetta var svo skemmtileg upplifun. Fyrir utan hnífaparaleysið. Svo ég röfli meira yfir því. Þarna var okkur boðið upp á sérlegt seremóníukaffi og sætt popp. Kaffi og popp er vanmetin blanda. 

EÐA KAFFISÚKKULAÐIPOPP? Já! Ég ætla að prófa það. Ó, boj.



Andrúmsloftið þarna inni er afar sérkennilegt. Á góðan hátt. Og matarlyktin - maður lifandi. 


Stórfjölskyldan æsispennt að bíða eftir réttum á borð við Dabo Bawaze, Michet Abish og Yebeg Tibs. 


Ó, myndirnar segja ekkert til um hversu mikið hnossgæti þetta var. Þær eru eiginlega bara ógirnilegar. En bragðið. Bragðið, ó bragðið. Ég fékk mér bæði lamb og naut. Þarna voru allskonar galdrar að eiga sér stað. Hvítlaukur, engifer, rósmarín, chilli - nefndu það. 

Bragðlaukarnir dönsuðu. Það var fjólublátt ljós við barinn. Svo gott sem. 


Maturinn er borin fram á pönnuköku. Og það fylgir önnur pönnukaka með - sem nota á til þess að skólfa í sig. Engin hnífapör. Neibb. Algjör óþarfi.


Sambýlismaðurinn reddaði sér svona. Enda alltof mikill snyrtipinni til þess að vaða í kjötkássuna með puttunum. 


Það er nú annað en þessi pía. Sem kláraði kökuna sem fylgdi aukalega á ljóshraða og varð að redda sér með lúkunum. Ekkert mál. Svolítill subbugangur. Og dálítið mikið um fingrasleikingar. 


Ég mæli eindregið með heimsókn á Minilik ef þið eruð á ferðinni á þessum slóðum. Ótrúlega skemmtileg upplifun. Bragðgóð með meiru. Og hræódýr líka. Sem er plús.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment