Ég sýndi ykkur um daginn hvernig búa á til ætt glimmer. Ég lét það ekki fylgja sögunni hvað voru margar misheppnaðar tilraunir og næstum því íkveikjur að baki. Hér má sjá afrakstur fyrstu tilraunar. Sykurinn var alltof lengi inni í ofninum, bráðnaði í hrikalegt klístur og það þurfti nánast að reykræsta íbúðina eftir þessar hamfarir.
Ógurlega sumarleg og sæt jógúrtkökuform. Nei ég kalla þetta ekki möffins. Þessar kökur heita jógúrtkökur. Ég baka þær reyndar bara til þess að gæða mér á deiginu.
Einu sinni borðaði ég fulla skál af þessu unaðslega deigi - bakaði ekki eina köku, borðaði bara deigið. Mér til varnar þá var ég ólétt. Það er kannski ekkert sérstaklega undarlegt að barnið mitt hafi verið á stærð við tunnu þegar það kom í heiminn.
Þetta góss pantaði ég mér úr Ilvu í vikunni. Ég hefði kannski mátt spyrjast fyrir um þyngdina á þessum blessaða Búddahaus áður en ég keypti hann. Hann er álíka þungur og ég. Sendingakostnaðurinn var verulega sláandi.
Ég er afskaplega hrifin af þessari hauskúpu. Ég get mér þess til að sambýlismaðurinn muni ekki deila þessari hrifningu minni. Hann um það. Ég veit hvor er smekklegri aðilinn í þessu sambandi. Að minnsta kosti þegar kemur að heimilinu.
Beikonsalt sem sambýlismaðurinn keypti í Köben. Hann hefur átt í sérlegu ástarsambandi við þennan stauk síðan við komum heim - jú því allt er betra með beikonbragði.
Eigið gott fimmtudagskvöld mín kæru.
No comments:
Post a Comment