Aug 13, 2013

Áfengir sleikipinnar.


Í dag bjó ég til áfenga sleikipinna. Ég er jú alltaf að leita að nýjum leiðum til þess að neyta áfengis. Þið munið kannski eftir rauðvínsíspinnunum sem ég bjó til ekki fyrir svo löngu. Þeir voru góðir og ekki eru þessir sleikjóar síðri. Alveg dásamlega skemmtilegir.


Uppskriftina af sleikipinnunum finnið þið hér. Það er tvennt sem ég gerði öðruvísi en uppskriftin segir til um: í staðinn fyrir corn syrup notaði ég bara gamla góða sýrópið í grænu dósinni (google sagði að ég mætti það). Ég notaði engan hitamæli til þess að mæla hitastigið á blöndunni - ég leyfði þessu bara að sjóða duglega og tók blönduna af hellunni þegar hún virtist vera farin að þykkna. 

Annars er þetta ákaflega einfalt allt saman og tekur ekki nema fáeinar mínútur. Helstu ókostirnir við þessar framkvæmdir eru að íbúðin mín lyktar eins og viskítunna og afkvæmið er búið að bresta í grát að minnsta kosti þrisvar í dag af því hann má ekki smakka sleikipinnana sem að mamma hans var að búa til.



Einn stór. Bölvað vesen að þurfa að bryðja marga litla. 



Ég á svo sannarlega eftir að prófa mig eitthvað áfram með þetta. Fleiri bragðtegundir, meira áfengi, mojitosleikjóar og RAUÐVÍNSSLEIKJÓAR. Ó, boj - möguleikarnir eru endalausir.

Ég mæli eindregið með þvi að þið prófið.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment